Soðningin

Núna rétt í þessu vorum við, sambýliskona mín og ég, að standa upp frá borðum þar sem við borðuðum okkar uppáhaldsmat; soðna ýsu með nýjum kartöflum. Þetta þykir kannski ekki merkilegt, en mér er minnisstætt þegar ég var að alast upp norður á Akureyri, hvað mér þótti soðinn fiskur vondur og þurr matur. Þegar maður kemst til vits og ára sækir maður í að upplifa mat og annað, eins og var í æsku. Sérstaklega gerir maður þetta þegar maður hefur búið erlendis um tíma, þó ekki sé hann langur, og borðar mestmegnis svínakjöt og hænsnfugla ásamt salati af ýmsum gerðum. Ekki vil ég samt segja að svína og hænsnakjöt sé vont, síður en svo, en öllu má ofgera. Við vorum svo heppin fyrir skemmstu að geta keypt frosin ýsuflök og höfum treynt okkur að borða soðninguna þegar við höfum verið án gesta. Þetta er einfaldur matur, soðinn fiskur og nýjar kartöflur, að vísu danskar, íslenskt rúgbrauð með smjöri og lögg af hvítvíni með, ég verð að segja að betri matur er vandfundinn.

Þessi máltíð fékk mig til að hugleiða það, hvort íslendingar hafi fjarlægst sína eigin  matargerð. Þegar ég starfaði sem leiðsögumaður, var ég oft spurður um það hvar væri hægt að fá ekta íslenskan mat. Manni vafðist stundum tunga um tönn, þar sem í fljótu bragði var ekki um auðugan garð að gresja í þeim málum. Að endingu var oftast bent á ákveðinn veitingastað þar sem fiskur er í hávegum hafður. Þar fyrir utan var ekki um marga aðra staði að ræða, Múlakaffi lokað á kvöldin og BSÍ ekki það umhverfi sem fólk var að sækjast eftir, þó maturinn þar sé þjóðlegur í meiralagi, kjammi og kók.Blush

Þá er ég kannski farinn að nálgast niðurstöðu í þessu pári mínu. Það er deginum ljósara að fáir, ef nokkrir veitingastaðir bjóða upp á hefðbundna soðingu, en þess fleiri bjóða alþjóðlegan mat, sem er hægt að fá í flestum löndum og er ekki einkennandi fyrir landið okkar.

Vantar ekki stað þar sem fólk getur fengið soðingu með nýjum kartöflum ?  Þarf ekki að bjóða ferðlöngum, erlendum sem íslenskum, uppá eitthvað annað en pastarétti og hamborgara ? Á stöku stað er þó hægta að fá soðningu og íslenkska kjötsúpu, en því miður eru þeir staðir allt of fáir og ekki allir í "alfaraleið". Margir ferðamenn velja áfangastaði eingöngu eftir matseðli og þar er sóknarfæri í ferðaþjónustunni, nú þegar kreppan þrengir að hjá íslendingum.

Þetta var hugleiðing mín um soðninguna, lifið heil.


Kæru landar

Nú hef ég loksins manndóm (og nennu) í mér að skrifa eitthvað á bloggið. Eftir að vera búinn að lesa hinar ýmsu bloggfærslur, um ýmis málefni sýnist mér að margir bloggverjar séu ansi duglegir við að níða skóinn hver af öðrum og standa sig vel í að gagnrýna þá sem kannski geta ekki, eða vilja ekki, stöðu sinnar vegna, svara fyrir sig. Sannast sagna held ég, að mörg skrif sem birtast jaðri við persónuárásir og gætu jafnel verið nægileg ástæða til lögsóknar, ef út í það væri farið. En nóg um það.

Margt hefur verið skrifað um ísbjarnarræfilinn sem var skotinn norður á Skaga, en það sem kemur mér spánskt fyrir sjónir er að þegar fyrri björninn var skotinn voru yfirvöld gagnrýnd fyrir aðgerðar/úrræðaleysi, en svo þegar yfirvöld reyna að gera eitthvað eru þau gagnrýnd fyrir flottræfilshátt og peningasóun. Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að gera fólki til hæfis ? Spyr sá sem ekki veit. Mín persónulega skoðun er sú að skjóta átti björninn strax, en að ég fari að atyrða stjórnmálamenn- og konur fyrir að gera annað, kemur ekki til greina. Þess þá síður að gera athugasemdir við klæðaburð einstakra ráðherra.

En svona er þetta, orðið er frjálst en getur verið vandmeðfarið í hita leiksins.

Jæja kæru landar, ég er búinn að blása í bili, farið vel með ykkur og aðra.


Sælir bloggverjar, nær og fjær

Þetta er mitt fyrsta blogg, en lengi hef ég hugsað um að stofna svona blogg, þar sem ég get tjáð mig um mál líðandi stundar. Nú hefur loksins orðið af því.

Þar sem ég er ekki búsettur á Fróni getur verið að ég sjái hlutina með öðrum augum en mínir kæru samlandar sem á skerinu búa og bið ég ykkur að fyrtast ekki við því, þó ég horfi á hlutina úr annarri átt en þið og kannski með öðrum skilningi.

Þau mál sem sem mér fiinst ég geta deilt skoðunum mínum með öðrum, mun ég skrifa um, þegar tími gefst, en, sem skólastrákur á bezta aldri, er ekki alltaf tími til að skrifa um allt sem er að gerast í umræðunni heima á Fróni. (Kannski sem betur fer)

Ekki mun ég eingöngu skrifa um það sem gerist heima á Fróni, heldur líka það sem er að gerast í Ríki Þórhildar Danadrottningar og ég sé með mínum nærsýnu augum.

Með von um góð og skemmtileg samskipti.

Steinmar


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband