17.4.2009 | 08:00
Mig langar heim
Ég klára mitt nám í sumar en hef ekki í hyggju að snúa heim á leið alveg strax. Fyrir því eru nokkrar ástæður; sambýliskona mín á eftir 2 ár af sínu námi, mig langar að bæta við mig í mínu fagi, en það verður ekki í boði fyrr en haustið 2010, svo heimkoma mun frestast um óákveðin tíma.
Ég er ekki ungur, nema í anda, en ásatndið á vinnumarkaði heima á Fróni er þannig að ég tel mig ekki geta tekið áhættuna á því að flytja heim án þess að hafa loforð um vinnu. Reyndar er ástandið á vinnumarkaði hér í landi Þórhildar Skattadrottningar, ekki gott, en þó heldur skárra en heima. Vonandi mun ástandið batna með betri tíð og blóm í haga, en það er spurning hvað það tekur Íslendinga langan tíma að ná sér upp úr þessum djúpa dal sem við erum í.
Margir, en ekki allir, sem hafa lokið námi hér í Horsens á síðustu mánuðum, hafa ekki fengið neina vinnu og eru þar af leiðandi að mæla göturnar. Svo eru aðrir sem hafa verið heppnir og fengið vinnu. Ég er í þeirri stöðu að þurfa að finna vinnu í eitt ár, áður en ég get haldið áfram með námið og klárað það. Það verður svo að koma í ljós hvort manni verður eitthvað ágengt í atvinnuleit.
En hvað um það; ég verð að vera hæfilega bjartsýnn á framtíðina, annað er hreinlega hættulegt. Þó er eitt alveg víst; við munum flyja heim til Íslands um leið og við höfum lokið okkar námi og höfum einhverja von til að finna vinnu. Það er að mörgu leyti ágætt að vera hér í Danmörku, en landið mitt gamla með jöklum, fossum og fjöllum er einfaldlega lang best í heimi hér, því fær ekkert breytt.
Það skiptir landið og atvinnulífið miklu máli að þeir sem fara erlendis til náms, snúi aftur svo þekking þeirra komi að notum við uppbyggingu og þróun atvinnulífsins. Nám er einfaldlega fjárfesting til framtíðar. Það ætti að vera ráðamönnum ljóst að á erfiðum tímum, eins og núna, er besta fjárfestingin í námi, hvort sem það er iðnnám, tækni- eða háskólanám.
Lifið heil.
Steinmar
![]() |
Fáir námsmenn ætla aftur heim |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.